BARNATRYGGING

Þessari vátrygging tryggir börn og ungmenni frá 1 mánaðar aldri, til 22 ára, fyrir ýmsum læknisfræðilegum áföllum og tengdum kostnaði.  Tryggja ehf., Stórhöfða 23, 110 Reykjavík,  er löggild vátryggingamiðlun sem hefur milligöngu um vátryggingarsamninginn við Travelers Ltd. (Syndicate 5000), Exchequer Court, 33 St. Mary Axe, EC3A 8AG London,   hér eftir kallað „félagið“, sem er vátryggjandi á Lloyds of London vátryggingamarkaðinum. 

Tryggja ehf. hefur alla milligöngu um hvers kyns þjónustu og iðgjaldsgreiðslur er varða vátryggingasamninginn. Símanúmer 414-1999 eða tryggja@tryggja.is.

Þessir vátryggingaskilmálar mynda grundvöll vátryggingarsamningsins ásamt vátryggingarskírteini og vátryggingarumsókn. 


1. Kafli.  Varanleg og læknisfræðileg örorka 

1.gr. Bætur vegna varanlegrar Örorku: 

Vátryggingin greiðir eingreiðslubætur vegna læknisfræðilegrar örorku sem hlýst af sjúkdómi eða slysi vátryggðs sem verður á vátryggingartíma. Bætur greiðast ef mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku við endanlegt örorkumat er 5% eða meira. Bætur vegna læknisfræðilegrar örorku sem metin er lægri, greiðast ekki. Bætur greiðast í hlutfalli við vátryggingafjárhæð sem tilgreind er á vátryggingarskírteini.

  • Verði vátryggður fyrir lömun, þverlömun vegna sjúkdóms eða slyss greiðast bætur sem tilgreindar eru á vátryggingaskírteini til vátryggðs vegna breytinga á hjólastóla aðgengi á heimilisfesti vátryggðs. 

2.gr. Mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku

Læknisfræðilega örorku skal meta í hundraðshlutum samkvæmt töflum Örorkunefndar um miskastig sem í gildi eru þegar örorkumat fer fram. Meta skal skerðingu á líkamlegri færni, án tillits til starfs, sérstakra hæfileika eða þjóðfélagsstöðu vátryggðs. Sé áverka/heilsutjóns ekki getið í töflum Örorkunefndar um miskastig skal meta það sérstaklega, með hliðsjón af töflunum. Ber matsmanni þá að styðjast við útgefnar örorkutöflur annarra landa eftir því sem frekast er unnt. Örorka getur aldrei talist meiri en 100%. Læknisfræðileg örorka sem var fyrir hendi þegar vátryggingin tók gildi veitir aldrei rétt til bóta. Sama gildir um ör eða önnur útlitslýti. Læknisfræðileg örorka skal endanlega ákveðin þegar örorkumat vátryggðs telst raunhæft að mati trúnaðarlæknis félagsins. Örorkumat skal eiga sér stað innan 12 mánaða frá tjónsatburð. Ef félagið telur ekki raunhæft að meta endanlega örorku innan þessara 12 mánaða getur félagið frestað endanlegu örorkumati í allt að 12 mánuði til vibótar.  Ef vátryggður hefur greinst með fleiri sjúkdóma en einn og/eða lent í slysi eða fleiri slysum en einu á vátryggingartímanum, miðast mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku við heildarmat vegna allra bótaskyldra sjúkdóma og/eða slysa. Örorka sem hlýst af öðrum sjúkdómum, slysum eða öðrum atvikum sem falla ekki undir vátrygginguna á vátryggingartíma verður ekki metinn sem hluti af mati til greiðslu bóta. 

  • Vátryggingin bætir ekki tjón sem orsakast vegna notkunar á skráningarskyldu ökutæki.

3.gr. Skilyrði greiðslu bóta: 

Bætur greiðast vátryggðum sjálfum þegar endanlegt örorkumat liggur fyrir. Sé vátryggður ófjárráða við gjalddaga bóta greiðast bætur inn á bundin bankareikning í viðurkenndri fjármálastofnun á Íslandi, sem bundin er til 18 ára aldurs. 

2. KAFLI AÐHLYNNINGARVERND 

4.gr. Skilyrði greiðslu bóta: 

Vátryggingin greiðir bætur greiðast þegar vátryggður vegna sjúkdóms eða slyss er vistaður á sjúkrastofnun og/eða þarfnast sólarhrings aðhlynningar heima fyrir, samfara virkri meðferð, í 7 samfellda daga eða meira á 100 daga tímabili. Með orðunum, „virk meðferð” er átt við það sem gera þarf til þess að hafa áhrif á veikindin svo sem lyfjagjöf, þjálfun, læknismeðferð og almenna aðhlynningu frá umráðamanni eða hjúkrun. Skilyrði bótaskyldu er að vottorð þess læknis sem annaðist vátryggðan á ofangreindu tímabili staðfesti vistun á sjúkrastofnun og/eða umönnunarþörf og virka meðferð sem og tímabil. 

5.gr. Takmörkun bótaskyldu 

Bætur greiðast einu sinni vegna hvers slyss eða sjúkdóms sem bótaskylt er. Takmörkun þessi nær einnig til fylgikvilla þeirra sjúkdóma, slysa og veikinda eða heilsufarseinkenna sem tengjast þeim læknisfræðilega. 

6.gr. Greiðsla bóta og rétthafi 

Bætur greiðast til forráðamanns vátryggðs ef hann er yngri en 18 ára. Bætur greiðast til vátryggingartaka ef vátryggður er eldri en 18 ára. 

3. KAFLI SJÚKDÓMAVERND 

7.gr. Skilyrði bóta 

Bætur vegna Sjúkdómaverndar greiðast í eingreiðslu ef vátryggður hlýtur eftirfarandi sjúkdómsgreiningu, sbr. nánari lýsingu í 8. gr. skilmála þessara:

• MS (heila- og mænusigg) 

• krabbamein 

• sykursýki (diabetes mellitus, tegund 1) 

• alvarleg brunasár 

• slímseigjusjúkdómur (cystic fibrosis) 

• liðagigt 

• alnæmi (AIDS) vegna stunguóhapps. 

Bótaskylda er háð því að greining sjúkdóms hafi átt sér stað seinna en þremur mánuðum eftir gildistöku vátryggingarinnar. Bótaskylda er einnig háð því að vátryggður sé á lífi 30 dögum eftir að sjúkdómsgreining hefur fengist. 



8.gr. Nánari lýsing á bótaskyldum sjúkdómstegundum Sjúkdómaverndar 

MS (heila- og mænusigg): Heila- og mænusigg greint á barnadeild við viðurkennt sjúkrahús eða af sérfræðingi í taugasjúkdómum. Hinn vátryggði verður að hafa taugakerfiseinkenni í a.m.k. sex mánuði eða haft a.m.k. tvö klínískt staðfest tímabil einkenna. Þessu til staðfestingar skuli einkenni afmýlingar og truflun hreyfinga og skynjunar vera dæmigerð ásamt greiningu á mænuvökva og niðurstöðum segulómrannsóknar. 

Krabbamein: Sjúkdómur sem gefur sig til kynna með illkynja æxli, sem einkennist af stjórnlausum vexti og dreifingu illkynja frumna og íferð í vef. Sjúkdómsgreininguna verður að sannreyna með afgerandi vefjarannsókn. Heitið krabbamein innifelur einnig hvítblæði og illkynja sjúkdóm í eitla og vessakerfinu ss. Hodginssjúkdóm. 

Undaskilin bótaskyldu eru:

 • hvers konar húðkrabbamein (þ.m.t. á vörum) að undanskyldum illkynja sortuæxlum

• öll æxli sem er vefjafræðilega lýst sem forstigseinkennum eða sem einungis sýna snemmbærar illkynja breytingar 

• setbundið krabbamein, ekki ífarandi. 

Sykursýki (Diabetes Mellitus tegund 1): Sykursýki greind af sérfræðingi í barnalækningum eða lyflækningum. Fastandi blóðsykur verður í endurteknum sýnum að hafa verið hærri en 8 mmol/l og vátryggður verður að hafa fengið meðhöndlun með insúlíni í meira en þrjá mánuði. 

Alvarleg brunasár: Alvarleg brunasár eru þannig skilgreind að um þarf að vera að ræða þriðja stigs brunasár sem þekja a.m.k. 20% af yfirborði líkama vátryggðs eða, ef þriðja stigs brunasár eru á andliti, þá þurfa brunasár að þekja a.m.k. 7% af yfirborði líkamans. Greining þessi þarf að vera staðfest af sérfræðingi. 

Slímseigjusjúkdómur (Cystic Fibrosis): Slímseigjusjúkdómur greindur af sérfræðingi í barnasjúkdómum. Vátryggður verður að hafa haft langvinnan lungnasjúkdóm og/eða skort á framleiðslu brissafa. Jafnframt verður svitapróf að sýna að styrkur klóríðs sé meiri en 60 mmol/l hjá 16 ára og yngri og meiri en 80 mmol/l hjá eldri en 16 ára. 

Liðagigt (barnaliðagigt / langvinn liðagigt): Liðagigt, barnaliðagigt eða langvinn liðagigt greind á viðurkenndu sjúkrahúsi eða hjá sérfræðingi í gigtarlækningum. Með gigt er í öllu samhengi átt við liðbólgur og að minnsta kosti tvö af eftirfarandi einkennum: Hreyfiskerðingu, hitaaukningu og sársauka. 

  • Liðagigt hjá 16 ára og yngri:  Gigt í fleiri en einum lið í meira en þrjá mánuði. Rannsóknir skulu hafa farið fram sem útiloka að einkennin stafi frá liðbólgu tengdri sýkingu, smitandi liðsjúkdómi, bæklunarsjúkdómi, áverkum, óeðlilegri nýmyndun vefja, ónæmishöfnun og æðabólgu.
  • Liðagigt hjá eldri en 16 ára: Að minnsta kosti fjögur af eftirfarandi sjö einkennum skulu vera til staðar: 1. morgunstirðleiki (stirðleiki í og kringum liði sem varir meira en 1 klukkutíma) 2. liðbólga í þremur eða fleiri af eftirfarandi liðum samtímis: úlnliður, nærkjúkuliður fingra, miðkjúkuliður fingra, olnbogi, hnéliður, ökklaliður og tábergsliðir 3. liðagigt í eftirfarandi liðum handarinnar: úlnliður, nærkjúkuliður fingra eða miðkjúkuliður fingra 4. samhverf liðagigt (liðagigt í sömu liðum á hægri og vinstri helmingi líkamans á sama tíma) 5. gigtarhnútar 6. jákvæðir gigtarþættir 7. dæmigerðar röntgenbreytingar á handa- og úlnliðsmyndum. Einkenni 1.-4. verða að hafa verið til staðar í minnst 6 vikur. Einkenni 2.-5. verða að hafa fundist af sama lækni og greindi sjúkdóminn. 

Alnæmi (AIDS) vegna stunguóhapps):  Eyðniveirusmit af völdum stunguóhapps sem vátryggður verður fyrir af völdum nálar sem skilin hefur verið eftir á leiksvæðum og útivistarsvæðum. Öll óhöpp sem mögulega geta leitt til bótakröfu verður að tilkynna til félagsins innan 7 daga frá óhappinu. Með tilkynningunni skal óhappaskýrsla fylgja ásamt staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu úr HIV mótefnamælingu sem tekin var strax eftir óhappið. Breyting í jákvætt próf (seroconversion) skal hafa gerst innan 6 mánaða frá óhappinu. 

9.gr. Greiðsla bóta og rétthafi 

Bætur greiðast til forráðamanns vátryggðs ef hann er yngri en 18 ára. Bætur greiðast til vátryggðs ef hann er eldri en 18 ára. 

10.gr. Takmörkun á Sjúkdómavernd

Bætur greiðast einu sinni vegna hverrar sjúkdómstegundar skv. 7. og 8. gr. skilmálanna en vátryggingin gildir áfram fyrir aðrar sjúkdómstegundir sem þar koma fram. Þetta þýðir t.d. að aðeins einu sinni fást greiddar bætur Sjúkdómaverndar vegna allra hugsanlegra krabbameinstilvika.

Ef bætur vegna Sjúkdómaverndar eru greiddar greiðast bætur Aðhlynningarverndar ekki vegna sama sjúkdómsástands. 

3. KAFLI ÚTFARARKOSTNAÐUR 

11.gr. Skilyrði greiðslu útfararkostnaðar

Ef vátryggður deyr á vátryggingartíma greiðast bætur vegna útfararkostnaðar. Vátryggingarfjárhæðin kemur fram í vátryggingarskírteini. 

12.gr. Dánarbætur og rétthafi 

Bætur greiðast til forráðamanns vátryggðs ef hann er yngri en 18 ára. Bætur greiðast til vátryggingartaka ef vátryggður er eldri en 18 ára. 


4. KAFLI ALMENN ÁKVÆÐI 

13.gr. Gagnaöflun og greiðsla kostnaðar

Félagið greiðir venjulegan kostnað við öflun læknisvottorða, sem eru að mati félagsins nauðsynleg til afgreiðslu kröfu um bætur úr vátryggingunni. Félagið greiðir ekki kostnað vegna lögmannsaðstoðar né heldur annan kostnað sem stofnað er til án samþykkis félagsins. 

14.gr. Aldursmörk – aðilar vátryggingarsamnings

Félagið vátryggir ekki börn yngri en 1 mánaða og vátrygging fellur úr gildi er vátryggður nær 22 ára aldri. 

Vátryggingartaki er sá sem gerir samning um vátrygginguna og greiðir iðgjald hennar. Vátryggður er sá einstaklingur sem tiltekin er sem vátryggður á vátryggingarskírteini. 


15.gr. Greiðslur bóta

Bætur greiðast innan 14 daga eftir að fullnægjandi sannanir hafa borist fyrir bótaskyldu félagsins og unnt er að ákveða fjárhæð bótanna. Um vexti af bótafjárhæðum fer samkvæmt ákvæðum laga um vátryggingarsamninga.

16.gr. Almennar takmarkanir 

Vátryggingin tekur ekki til nokkurra sjúkdóma sem sýna einkenni innan þriggja mánaða frá því að vátryggingin gekk í gildi. Vátryggingin nær ekki til slysa eða sjúkdóma sem beint eða óbeint eru af völdum kjarnabreytinga, jónandi geislunar, mengunar af geislavirkum efnum, kjarnaeldsneytis og kjarnaúrgangsefnis eða af völdum styrjaldar, innrásar, hernaðaraðgerða, óeirða, uppreisnar, uppþots eða svipaðra atvika né heldur slysa eða sjúkdóma af völdum hryðjuverka vegna hvers konar líffræðilegra eða efnafræðilegra áhrifa og/eða eitrunar, þ.m.t. vegna sýkla og veira. 

17.gr. Sérstakar takmarkanir 

  • Ástand eða atburður fyrir töku vátryggingar:

Vátryggingin tekur ekki til sjúkdóma, slysa, líkamságalla eða andlegs seinþroska/þroskaröskunar né heldur til afleiðinga slíks ástands, hafi einkenni þessa sýnt sig áður en vátryggingin tók gildi. 

  • Meðfæddir kvillar: 

Vátryggingin tekur ekki til meðfædds sjúkdóms, meðfædds líkamságalla eða meðfædds andlegs seinþroska/þroskaröskunar né heldur til afleiðinga slíks ástands ef talið er líklegt samkvæmt læknisfræðilegri reynslu; að það hafi verið til staðar frá fæðingu eða eigi rót sína að rekja til sjúkdóms á fyrsta mánuði þar í frá eða að tilhneigingin til slíks ástands hafi verið til staðar við fæðingu. Ef einkennin koma fyrst í ljós þegar barnið er orðið 6 ára gilda takmarkanir samkvæmt 2. tölulið ekki. 

  • Algjör takmörkun: 

Vátryggingin nær ekki til eftirtalinna sjúkdóma, heilkenna eða ástands án tillits til hvenær fyrstu einkenni koma fram: 

- ADD

-DAMP

-ADHD (athyglisbrestur, misþroski og athyglisbrestur með ofvirkni)

- OCD (árátta og þráhyggja)

 - Aspergers heilkenni 

- Tourettes heilkenni 

- hvers konar andlegur seinþroski/þroskaröskun 

- einhverfa - lesblinda eða aðrar námsraskanir 

- geðrænar raskanir eða geðsjúkdómar. 


Með geðrænni röskun og geðsjúkdómi er t.d. átt við persónuleikatruflanir, átraskanir, taugageðrænar raskanir, geðveiki, hugraskanir, kvíða, þunglyndi eða langvinna þreytu. Vátryggingin tekur ekki til sjúkdóma sem rót eiga að rekja til misnotkunar áfengis, lyfja eða vímuefna svo og fegrunar- eða lýtaaðgerða. 


18.gr. Aldurstengdar takmarkanir vegna 16 ára og eldri

Hafi vátryggður valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð eða afleiðingar hans urðu meiri en ella hefði orðið má lækka eða fella niður ábyrgð félagsins. Vátryggingin nær ekki til slysa er verða í hvers konar akstursíþróttum, bardagaíþróttum, fjallaklifri, klettaklifri, bjargsigi, froskköfun, drekaflugi, svifflugi og fallhlífarstökki. 

19.gr. Gildistími - Endurnýjun 

Vátryggingin gildir fyrir það tímabil sem tilgreint er í vátryggingarskírteini. Vátryggingin er endurnýjuð fyrir eitt ár í senn. 

20.gr. Uppsögn af hálfu vátryggingartaka - Uppgjör iðgjalds 

Vátryggingartaki getur sagt vátryggingunni upp skriflega hvenær sem er á vátryggingatímabilinu. Þá á félagið rétt á hlutfallslegu iðgjaldi miðað við þann tíma sem vátryggingin var í gildi en endurgreiðir iðgjöld fyrir annað tímabil sem þá þegar er greitt. Réttur til endurgreiðslu stofnast þó ekki þegar vátryggingaratburður, sem veitir rétt til greiðslu bóta, hefur orðið á vátryggingartímabilinu. 

21.gr. Uppsögn af hálfu félagsins á vátryggingartímanum

 Félagið getur sagt upp vátryggingunni, ef einhver eftirtalinna atvika eiga við: 1. ef gefnar hafa verið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um áhættuna, með 14 daga fyrirvara; 2. ef vátryggingartaki hefur viðhaft sviksamlega háttsemi við upplýsingagjöf til félagsins um áhættuna, án fyrirvara; 3. Ef sérstakar aðstæður eiga við, með 60 daga fyrirvara. 

22.gr. Brot á upplýsingaskyldu vegna áhættuupplýsinga

Hafi vátryggingartaki sviksamlega vanrækt upplýsingaskyldu sína um atvik sem haft geta þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu og vátryggingaratburður orðið, ber félagið ekki ábyrgð. Hafi vátryggingartaki eða vátryggður með öðrum hætti vanrækt upplýsingaskyldu sína í þeim mæli að ekki telst óverulegt fellur ábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta. 

23.gr. Brot á upplýsingaskyldu við uppgjör bóta

Sá sem við tjónsuppgjör veitir af ásetningi rangar eða ófullnægjandi upplýsingar við uppgjör bóta glatar öllum rétti á hendur félaginu samkvæmt þessum og öðrum vátryggingarsamningum vegna hins tiltekna vátryggingaratburðar. Í slíkum tilvikum getur félagið sagt upp öllum vátryggingarsamningum sínum við viðkomandi með einnar viku fyrirvara. 

24.gr. Iðgjaldið

Vátryggingartaki skal greiða iðgjald til félagsins en Tryggja ehf. innheimtir iðgjaldið. Iðgjald er ákveðið miðað við iðgjaldaskrá félagsins hverju sinni. Fyrsta iðgjald fellur í gjalddaga þann dag sem vátryggingin tekur gildi. Síðari iðgjöld falla í gjalddaga á fyrsta degi hvers endurnýjunartímabils. Greiðslufrestur skal vera einn mánuður hið skemmsta frá þeim degi sem félagið sendi tilkynningu um greiðslu til vátryggingartakans. Krafa um greiðslu iðgjalds verður send vátryggingartaka á það heimilisfang, sem hann hefur tilkynnt félaginu. Sending tilkynningar eða greiðsluseðils jafngildir kröfu um greiðslu. Breytingar á heimilisfangi skal tilkynna félaginu þegar í stað.

25.gr. Vanskil iðgjalds 

Sé iðgjald ógreitt þegar greiðslufresti lýkur, sendir Tryggja ehf. nýja tilkynningu þar sem greiðslu er krafist innan 14 daga. Sé iðgjald ekki greitt innan 14 daga frá dagsetningu þeirrar tilkynningar fellur vátryggingin þegar niður. 

26. gr. Vátryggingarfjárhæðir og verðbætur

Vátryggingarfjárhæðir eru samkvæmt samningi um vátrygginguna milli vátryggingartaka og félagsins. Upplýsingar um vátryggingarfjárhæðir koma fram í vátryggingarskírteini eða iðgjaldskvittun.  Allar vátryggingarfjárhæðir og samsvarandi iðgjald hækka um 2,5% við hverja endurnýjun.

27. gr. Skilgreining hugtaksins „slys“

Með orðinu “slys” er í vátryggingarskilmálum þessum átt við skyndilegan, utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama vátryggðs og gerist án vilja hans. Við meiðsl á útlimum er þess þó eingöngu krafist að um skyndilegan atburð sé að ræða sem veldur meiðslum á líkama vátryggðs og gerist án vilja hans. 

28.gr. Skilgreining á hugtakinu „sjúkdómur“ 

Með orðinu ”sjúkdómur” er átt við að heilsa vátryggðs hafi versnað, enda þótt ekki sé slysi um að kenna í skilningi vátryggingarinnar. Sjúkdómur telst vera til staðar talið frá þeim degi þegar læknis er fyrst leitað. Sjúkdómar með læknisfræðileg tengsl teljast vera einn og hinn sami sjúkdómur. Einangrun vegna smits samkvæmt fyrirmælum opinbers aðila telst vera sjúkdómur. 

29.gr. Frestur til að tilkynna um tjón

Tjón ber að tilkynna svo fljótt sem auðið er með því að hafa samband við Tryggja ehf. Vátryggður getur glatað rétti til bóta ef: 1. hann tilkynnir félaginu ekki um kröfu sína innan árs frá því að hann vissi um atvik sem hún er reist á; 2. hann hefur ekki höfðað mál eða krafist meðferðar málsins fyrir Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu um að kröfu hans væri hafnað. 

30.gr. Fyrning

Kröfur um bætur úr vátryggingu þessari fyrnast samkvæmt ákvæðum laga um vátryggingasamninga. Frá þeim fyrningarfresti dregst þó sá tími sem líður frá réttilega tilkynntu tjóni skv. 19. gr. þegar svo stendur á að trúnaðarlæknir félagsins skv. 2. gr. telur endanlegt örorkumat ekki tímabært 1 ári frá tjónsatburði. 

31.gr. Ákvæði í vátryggingarskírteini 

Ákvæði í vátryggingarskírteini eða endurnýjunarkvittun ganga framar ákvæðum í skilmálum. Ákvæði í vátryggingarskírteini, endurnýjunarkvittun og skilmálum ganga framar frávíkjanlegum lagaákvæðum. 

32.gr. Lög um vátryggingarsamninga

Að öðru leyti en kemur fram í þessum vátryggingarskilmála, gilda um vátryggingu þessa lög um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. 

33.gr. Ágreiningur

Verði ágreiningur um vátrygginguna skal íslenskur dómstóll skera úr honum samkvæmt íslenskum lögum, nema annað leiði af þjóðréttarsamningi sem Ísland er bundið af. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum sker úr ágreiningi um bótaskyldu, sök og sakarskiptingu auk ágreinings um atriði, er varða ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum er vistuð er hjá Fjármálaeftirlitinu og má nálgast upplýsingar og málskotseyðublað vegna nefndarinnar á vefsíðunni www.fme., auk fyllri upplýsinga um starfssvið og starfsháttu hennar. Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum skerðir ekki rétt málskotsaðila til þess að leggja málið fyrir almenna dómstóla.


34. gr. Réttur til kvörtunar

Í því tilfelli að þú teljir þig ekki fá rétta úrlausn máls og vilt kvarta, þá getur þú gert það hvenær sem er með því að visa kvörtun til: 

Policyholder and Market Assistance
Lloyd's Market Services
One Lime Street
LONDON EC3M 7HA
Telephone: +44 (0)207 327 5693
Fax: +44 (0)207 327 5225
Email:
complaints@lloyds.com.
Eða:
The Compliance Officer
Travelers Syndicate Management
Exchequer Court
33 St Mary Axe
London
EC3A 8AG
Email:
customerrelations@travelers.com